Ósajurt
Ruppia maritima
er marggreind jurt
með þráðlaga græn blöð og vex á kafi í sjávarlónum eða hálfsöltum ósum
eða lænum út frá sjávarfitjum. Blómin eru smá,
tvö saman í hverju axi. Öxin eru stilkuð, nokkur saman í sveiplaga
skipan á enda 1-5 sm langs axleggs. Axleggurinn er beinn eða boginn, en
ekki reglulega skrúfumyndaður. Aldinið er áberandi skakkflöskulaga. Ósajurt finnst á nokkrum stöðum í kring um landið frá
Breiðafirði um landið norðanvert suður í Lónsfjörð á Austurlandi líkt og
lónajurtin, en á sumum þessara staða er ekki vitað um hvora
jurtina er að ræða. Ósajurtin vex einkum í lónum, árósum og síkjum sem
renna út af sjávarfitjum.
Ósajurt er fíngerð, fjölær
vatnajurt sem vex á kafi í söltum sjó eða hálfsöltu
vatni, með láréttum,
grönnum jarðstöngli og uppréttum, greindum hliðarstönglum. Blöðin eru
striklaga, flöt, með einum miðstreng, 0,5 mm breið, ydd í endann.
Blaðfóturinn er með, himnukenndu slíðri sem er lítið eða ekki
uppblásið. Blómin eru
blómhlífarlaus, blóm og aldini standa á enda kransstæðra, langra (1-2,5
sm) leggja. Aldinin eru
skakkflöskulaga
með stuttum stút, 2-2,5 mm á lengd og 1 mm breið.