Kvenblóm grasvíðisins eru með einni
stuttri, oft langhærðri rekilhlíf og einni aflangri, dökkrauðri frævu
sem dregst fram í stút. Þroskuð aldinin eru fagurrauð, 5-9 mm á lengd,
lítið hærð, oft um það bil 5-15 saman í hverjum rekli. Við þroskun
opnast aldinin að endilöngu á hliðunum og birtast þá langir, hvítir
hárbrúskar sem eru svifhár fræjanna. Þessir ullarhnoðrar verða mjög
áberandi þegar líður á sumarið, og nefnast þeir kotún.
Grasvíðir er mjög auðþekktur frá
öðrum íslenzkum víði á blaðlöguninni. Hann getur þó verið töluvert
breytilegur í útliti eftir vaxtarstöðum. Á láglendi, einkum sunnan
lands, má oft sjá grasvíði sem hefur nokkuð uppréttar greinar og stór
blöð en blómgar lítið. Í snjódældum til fjalla er hann ætíð jarðlægur og
blómstrar þar oftast ríkulega. Sums staðar þar sem snjóþungt er myndar
hann nokkuð sérstæðar, afar kræklóttar greinar (neðsta myndin). Grasvíðir getur
myndað kynblendinga með öllum hinum íslenzku víðitegundunum.
Hér sést kvenplanta grasvíðis með aldinum í Súlnahlíðum við Akureyri árið 1963
Hér eru blóm karlplöntunnar í návígi.